Nings eggjanúðlur með ristuðum kjúklingabaunum/kjúkling

Fyrir nokkru síðan lét ég loksins verða að því að gera tilraun að búa til minn eigin Nings eggjanúðlu rétt sem er einn vinsælasti þar. Ég elska þennan rétt hjá Nings en sá veitingastaður verður dýrari með hverju skiptinu og minnkar skammtana í samræmi við það. Ég ákvað því að reyna að gera sambærilegann rétt heima hjá mér til þess að spara mér smá pening en samt fá réttinn góða. Hér er afraksturinn.

Í þetta skipti fannst mér tilvalið að hafa réttinn með ristuðum kjúklingabaunum en það er auðvitað smekksatriði. Uppskriftin er fyrir hvorutveggja, kjúkling eða baunir.

Uppskriftin er fyrir 2-3 fullorðna einstaklinga

Hráefni

  • 1/3 pakki eggjanúðlur (fæst í Bónus, sjá að neðan)
  • 3-4 egg
  • 2 kjúklingabringur eða 2 krukkur kjúklingabaunir (frá Sollu) eða um 200 gr tilbúnar kjúklingabaunir
  • ½ Brokkolí haus af fullri stærð
  • 3-4 meðalstórar gulrætur
  • Sweet chilli sósa (ég nota Thai choice, fæst í Bónus)

Krydd

Salt, pipar, paprikukrydd, olía.

Byrjaðu á því að forhita ofninn í 180°c blástur.

Kjúklingabaunirnar/ kjúklingabringurnar

Settu kjúklingabaunirnar í sigti og leyfðu vökvanum að leka frá í um 3-4 mínútur. Það er EKKI nauðsynlegt að taka húðina utan af kjúklingabaununum. Húðin gefur okkur bara auka trefjar og það er mikið vesen að taka hana af hverri baun fyrir sig en auðvitað er það smekksatriði. Settu baunirnar á ofnplötu með smjörpappír. Settu 2 msk ólífuolíu og veltu þeim vel. Því næst setur þú salt, pipar og paprikukrydd á baunirnar og veltir þeim vel. Það er ekki nauðsynlegt að nota paprikukrydd á baunirnar heldur er hægt að nota hvaða krydd sem er til þess að gefa bragð, t.d. kjúklingakrydd, hvítlaukssalt eða pipar, oregano eða annað. Sniðugt að hugsa þetta þannig að setja það krydd sem ykkur finnst gott á snakk.

img_0952

Settu baunirnar inn í ofninn og veltu þeim á um 5 mínútna fresti. Þegar baunirnar eru búnar að vera inni í ofni í 20 mínútur skalt þú hækka hitann upp í 210°c og þá þarftu að fylgjast vel með þeim, velta á um 2-3 mín fresti og passa vel að þær brenni ekki. Fyrsta skiptið sem þú gerir ristaðar kjúklingabaunir er sniðugt að taka eina baun út reglulega og smakka til þess að sjá hversu vel ristaðar þú vilt hafa þær. Ekki of-rista þær, þá verða þær þurrar og vondar.

Ef þú ætlar að hafa kjúklingabringur skalt þú skera bringurnar niður í litla bita og skella á pönnu með salt, pipar, olíu og einu kryddi af eigin vali þar til eldað í gegn.

Grænmetið

Meðan kjúklingabaunirnar eru að ristast er gott að hafa til grænmetið. Skerðu brokkolíið í bitastærðir og gulræturnar í sneiðar eftir smekk.

img_0948

Núðlurnar

Settu vatn í pott, kveiktu undir og leyfðu suðunni að koma upp. Settu 1/3 af núðlunum í pottinn með 1 tsk af olíu svo að núðlurnar festist ekki saman. Náðu aftur upp suðu og núðlurnar ættu að vera tilbúnar á um 5 mínútum. Smakkaðu ef þú ert ekki viss.

img_0953

Rétturinn settur saman

Létt steiktu grænmetið með salt, pipar og olíu. Þegar það er tilbúið settu í sér skál og þvoðu pönnuna.

Nú ættu núðlurnar að vera tilbúnar. Settu vel af olíu á pönnuna með meðal háum hita. Hrærðu saman eggin í skál, settu á pönnuna með núðlunum og hrærðu saman með gaffli eða öðru sem dreifir vel úr núðlunum. Þegar eggin eru steikt og vel blönduð saman við núðluarnar skaltu setja grænmetið saman við ásamt kjúklingnum.

img_0954

Ef þú ert með kjúklingabaunirnar er ekki sniðugt að setja þær saman við allann réttinn ef þú ætlar þér að geyma afganga þar til daginn eftir. Kjúklingabaunirnar verða mjúkar og slepjulegar ef geymdar með öðru og því mikilvægt að geyma þær í sér loftþéttu íláti í ísskápnum.

 

Verði þér að góðu.

img_0958

Leave a Reply