Pizza kvöldsins- Spelt og hveitikím

Hjá mér eins og flestum öðrum eru pizza kvöld reglulegur viðburður og flestir hafa þá hefð að hafa föstudagspizzu. Við á mínu æskuheimili vorum með hina klassísku pizzu úr hveiti og geri sem var svo góð að maður gat ekki annað en borðað sig svo saddann að maður gat sig varla hreyft að borðhaldi loknu. Hveiti og ger hefur aldrei farið vel í minn maga og eftir að ég fór að huga vel að mataræðinu fyrir nokkrum árum síðan hef ég algjörlega hætt að baka með því. Gerði það að verkum að ég þurfti að hugsa lengra og leita aðferða til að búa til jafn bragðgóða pizzu uppskrift án þess að nota ger og hveiti. Niðurstaðan var spelt og hveitikím. Ég nota spelt í staðin fyrir hveiti í bakstur vegna þess að speltið er þekkt fyrir að fara betur í meltingarveginn á fólki en þrátt fyrir það að þá er spelt ekki glúteinlaust né hitaeiningaminna en venjulegt hveiti. Einnig vildi ég gera pizzu uppsrift sem innihéldi meira af næringarefnum og hærra hlutfall fitu og var hveitikímið kjörið til þess.

Hvað er hveitikím?

Hveitikím er sá hluti hveitikornsins sem fjarlægt er við vinnslu hveitisins vegna þess hversu fituríkt sá hluti er. Það gerist vegna þess að fita þránar og  dregur það úr geymsluþoli hveitisins. Því er mjög sniðugt að bæta við hveitikími við í bakstur en það þarf að hugsa sérstaklega að því hvernig það er geymt til þess að varðveita næringuna.

hveitikim

Geyma skal hveitikím í kæli og eftir opnun skal það vera notað innan 2 vikna því að eins og fyrr var sagt þá þrána olíurnar sem í því er. Ég legg það í vana minn að setja hveitikímið strax í frysti og tek út reglulega og set í loftþétt ílát inn í kæli sem ég nota svo innan 2 vikna. Því einn poki af hveitikím er mjög drjúgt og því erfitt að nota allt innan 2 vikna.

Hveitikím fæst í öllum verslunum og er geymt inni í grænmetis-, ávaxta- eða mjólkurkæli.

Spelt og hveitikím pizzan

 • 200 gr fínmalað spelt
 • 80 gr hveitikím
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 2 msk olía
 • 120-140 ml vel volgt vatn

Setjið þurrefnin í skál og hrærið vel saman og bætið svo olíunni og vatninu saman við. Deigið er mun þéttara en önnur pizzadeig og getur tekið smá tíma að fletja úr því. Ef að þið viljið vel crispy botn setjið þá deitið á ofngrind en ekki ofnskúffu eða bakka.

Bakist á 180 gráðum (blástur) þar til osturinn er orðinn fallega brúnn.

Hugmynd af áleggi

 • Pizzasósa
 • Skinka
 • Sveppir
 • Paprika
 • Fetaostur
 • Ananas
 • Ostur
 • Beikon

img_0989

Leave a Reply