Einn Djúsí dagur með Gló

Vegna fjölda fyrirspurna frá fylgendum mínum hafði ég samband við Gló til þess að kanna möguleikann á því að fá að prufa hjá þeim það sem fólk hafði lýst sem detox degi eða detox djúsum. Samdægurs höfðu yndislegar konur frá Gló samband við mig sem ég hitti svo í kjölfarið. Spjölluðum við aðeins saman um það hvaða tilgang þær sáu með djús deginum og misskilining með markaðssetninguna.

Áður en ég byrja á því að lýsa minni upplifun af deginum þá langar mig að leiðrétta misskilning á þessum ,,detox djús degi”. Gló auglýsir þennan sex djúsa pakka EKKI sem ,,detox” og vil ég og þau koma því á framfæri að hugmyndin með djús deginum er að gefa meltingunni hvíld með hreinsun sem mætti lýsa sem einskonar núllstilling. Hugmyndafræðin bakvið svokallað ,,detox-kúra” er mjög umdeild og ættu fyrirtæki og einstaklingar að fara mjög varlega með notkun á því orði. En er það efni í aðra grein sem ekki verður farið í hér.

Pakkinn sjálfur er mjög vel hannaður og komast allir safarnir saman í eina six-pack tösku. Hver safi er merktur með innihaldslýsingu. Með söfunum fylgja stuttar leiðbeiningar sem hægt er að styðjast við þegar velja á þá röð sem best þykir að drekka safana og aðrar gagnlegar upplýsingar.

Ég byrjaði daginn kl. 7 og fékk mér stórt vatnsglas, fór með barnið á leikskóla og sjálfa mig í vinnu. Það er mín skoðun að morgunmatur sé í raun og veru mikilvægasta máltíð dagsins til þess að koma meltingunni af stað, fá góða næringu inn í líkamann eftir nóttina og þannig getur líkaminn strax hafist handa við að vinna hana. En þrátt fyrir það að þá get ég eins og svo margir aðrir komist af til um kl. 10 án þess að finna fyrir hungri. Var það því lítið mál að bíða þar til kl. 10 með að drekka fyrsta safann. Gulrótarsafinn varð fyrir valinu og kom hann mjög á óvart hversu bragðgóður hann var. Mér var ráðlagt að drekka safana ekki hratt því að ef um venjulega máltíð væri að ræða þá myndi maður ekki borða hana hratt.img_1009

Ég vinn sem íþróttakennari og felst minn vinnudaguri í mikilli hreyfingu og göngu á milli staða. Á venulegum degi er því nauðsynlegt fyrir mig að fá nóg af hitaeiningum til þess að brenna svo líkaminn fari ekki í bakkgír með því að hægja á brennslu. Klukkan 11 eða um einni klukkustund eftir fyrsta safann fór ég að finna fyrir miklu orkuleysi og áttaði ég mig á því að ég hefði kannski átt að velja hentugri dag til þess að djúsa. Eftir afleysingu kl. 12 hljóp ég, já ég  hljóp, niður að ísskápnum og reyndi eftir bestu getu að hemja mig í að ,,chugga” ekki safanum í mig. Í hádeginu valdi ég græna boost drykk sem var alls ekki vondur en ég segi nú ekki alveg að hann hafi verið það bragðbesta sem ég hef smakkað. Með honum drakk ég mikið vatn og í kjölfarið hófst næsti afleysingatími. Þar til kl. 13/14 var dagurinn búinn að ganga ágætlega, ég var vissulega svöng en ekki svo svöng að garnirnar voru farnar að gaula. Hinsvegar var ég farin að finna fyrir miklu orkuleysi… og….. já köllum það erfiðleika með skapið. Ég er að eðlisfarið mjög hress og jákvæð en eins og svo margir aðrir þá get ég verið með svolítil tíkarlæti ef mér er ekki gefið að borða. Um kl. 13:30 var stutt í að vinnudeginum lyki þar sem ég vinn bara til kl. 14 á föstudögum. Á þeim tímapunkti langaði mig að leggjast í gólfið og gráta úr mér augun, já ég var komin yfir tíkarlætin og komin í ekkasog. Þetta var allt svo undarlegt, enn voru garnirnar ekki farnar að gaula heldur var ég komin í einhvern tilfinninga rússíbana sem ég réð ekkert við. Var það þá sem ég svindlaði smá og fékk mér tvo bita af banana með græna safanum þar sem ég var einnig á leiðina í img_1011vax. Ég tók einfaldlega ekki áhættuna á því að ég myndi annaðhvort gráta í kjöltunni á snyrtifræðingnum eða gefa henni einn á kjammann þegar herlegheitin myndu hefjast. Græni safinn var að mér fannst verstur á bragðið af öllum söfunum. Gott að segja frá því að snyrtifræðingurinn komst heill að líkama og sál frá þessu öllu saman og að vaxinu loknu um kl. 15 fékk ég mér rauðrófusafann. Eftir slíkar pyntingar leitast maður yfirleitt eftir einhverskonar huggun en ég get sagt ykkur að ekkert slíkt fékkst með því að drekka þunna en bragðgóða rauðrófusafann.

Því næst fór ég og sótti son minn á leikskólann sem ég geri yfirleitt full af orku eftir millimál kl. 15 og tilbúin í útiveru. Það fór nú ekki alveg svo að þessu sinni heldur fórum við heim, púsluðum smá og kubbuðum í rólegheitunum. Ég ákvað svo að til þess að ég gæti mögulega átt séns á að klára daginn myndi ég leyfa honum að horfa á sjónvarpið þar til það kæmi tími að borða kvöldmat. Fyrir hann að borða kvöldmat öllu heldur, ég þoli ekki grjónagraut en á þeim stað sem ég var þá hefði ég getað andað honum að mér. Það sem beið mín hinsvegar var fjögurra desilítra berja boost drykkur sem er minna magn en meðal maður notar til þess að skola niður tveimur töflum af fjölvítamíni. Ég get sagt ykkur það að ég svoleiðis STEIN rotaðist á sófanum með barnið hliðina á mér sem horfði stilltur á sjónvarpið. Á þeim tímapunkti sagði ég stopp og fékk mér að borða.

img_1012

Eins og ég sagði áðan þá gerði ég þau mistök að taka djús dag á virkum degi og í ljósi þess að ég lifi mjög virkum lífsstíl er því mjög erfitt fyrir mig að fá aðeins u.þ.b. 800 hitaeiningar yfir daginn. En þegar ég horfi framhjá því að þá var allt annað jákvætt við þennan dag nema það orkuleysi sem ég fann fyrir. Mér leið ekki illa í maganum og var ekki með hungurverki. Mér leið vel allann tímann, tilfinningin var svona eins og það hafi liðið tvær klst síðan ég borðaði síðast og ég þyrfti að fara að borða bráðlega, en ekki strax. Ég var létt á mér um morguninn og fann það um hádegið að ef ég væri heima í rólegheitunum á laugardags morgni (ekki ein með barn) að þá gæti ég hiklaust tekið svona dag reglulega. En í ljósi þess að ég er ekki í rólegri vinnu, lifi rólegu lífi né get beðið einhvern annann um að sinna barninu mínu seinnipartinn að þá verð ég að gera þetta öðruvísi. Ég gæti klárlega hugsað mér að taka hálfann djús dag reglulega. Sem sagt drekka safa fram að hádegismat eða mögulega fram að kaffi um kl. 14 á rólegum degi. Því ég fann berlega fyrir þeim góðu áhrifum sem þessi aðferð hefur en vegna aðstæðna verð ég að hagræða því öðruvísi.

Ég myndi geta mælt með þessu fyrir þá sem þurfa á einskonar núllstillingu að halda eftir erfiða daga í mataræðinu. Ég er ekki sammála því né viss um það hvort að meltingarfærin okkar þurfi í raun á ,,hvíld” að halda. Meltingarfærin okkar eru hönnuð til þess að vera í stöðugri vinnu en vissulega geta þau þurft á hvíld með breytingu að halda ef t.d. uppistaða mataræðis er brauðmeti, unnin kjötvara og þessháttar tormeltur matur. Gæti þá verið viðeigandi að taka einn djús dag til þess að hreinsa út og byrja á byrjunarreit á góðum og hollum mat til þess að auðvelda meltingunni starf sitt svo að orkan nýtist rétt. Hinsvegar að þá gæti ég algjörlega hugsað mér að taka hálfann djús dag eða djús dag eftir matmikla helgi, langa utanlandsferð eða aðra daga þar sem áhersla á rétt mataræði var ekki í forgangi.

glo_koparÉg er svo innilega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að prófa þetta þótt að það hafi ekki heppnast neitt allt of vel hjá mér. Á einhverjum tímapunkti þarf maður bara ða hlusta á líkamann því að hann veit hvað hann er að gera. Þessi upplifun kenndi mér alveg helling og get ég nú sagt frá minni reynslu því ég hef prófað þetta en ekki mína skoðun.

Ég vil þakka Gló fyrir pakkann. Þetta var mjög lærdómsríkur dagur.

 

Kær kveðja

 

Anna Þorsteinsdóttir

Engar Öfgar

Leave a Reply